Smelltu til að senda tölvupóst til arnthorr@yahoo.com
Gagnabanki um leiki, íþróttir og reynslu Smelltu til að senda tölvupóst til arnthorr@yahoo.com




Inngangur

Hæ, ég heiti Arnþór Ragnarsson er íþrótta- og tölvukennari Lækjarskóla í Hafnarfirði, mínum frábæra heimabæ. Ég er löggildur grunn- og framhaldsskólakennari, lauk kennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands að Laugarvatni árið 1994. Kenndi í Bolungarvík fyrsta veturinn eftir útskrift. Frá árinu 1995 kenndi ég í Æfingaskólanum í Reykjavík, sem fékk nafnið Háteigsskóli. Þar kenndi ég sund, íþróttir, ljósmyndun og upplýsingatækni fram til ársins 2000. Samhliða því lagði ég stund á framhaldsnámi í upplýsingatækni, ljósmyndun og kenndi sund í Kennaraháskólanum. Ég hef lengi haft mikinn sund- og siglingaáhuga, unnið nokkra Íslands- og bikarmeistaratitla með félögum mínum úr SH og Þyt og þjálfað hinar ýmsu íþróttagreinar. Örfá sumur hef ég verið með leikjanámskeið og þætti gaman að heyra með hvaða hætti þau eru í dag, miðla til þeirra leikja og sjá hvaða leikir ganga þar í dag. Árið 2000 tók ég launalaust leyfi, ferðaðist um Evrópu og Bandaríkin, tók myndir, bjó til nokkra vefi og lærði meira. Um það leyti vaknaði hugmynd að þessum litla leikjabanka fyrir íþróttir, markmið hans, þótt smár sé í upphafi er að hefja leikinn en fyrst og fremst að hvetja fleiri til að senda inn leiki sem virka og eru í notkun. Mikið er til af ýmiskonar leikjum sem ég veit að við íþróttakennarar, leiðbeinendur og aðrir höfum mörg reynt og lært en hér vil ég fá safn leikja, frá starfandi kennurum, leiki sem eru í notkun aftur og aftur, eru vinsælir og virka. Hingað áttu því ekki að senda leiki nema þú hefur notað þá nokkrum sinnum og þeir þykja skemmtilegir. Ef þú hefur hins vegar vitneskju um leiki sem þú heldur að virki máttu senda þá líka inn en tilgreina það sérstaklega og þá prófum við þá. Þetta litla safn sem hér fylgir nú og ég útbjó uppkast af í tveggja daga haust eða vetrarfríi 2001 er von mín að sé aðeins kveikjan að meira og ef svo verður verður efninu efnisraðað, t.d. eftir sundleikjum, boltaleikjum, skólum, landshlutum eða enn öðru. Látum reyna á þetta, ég hvet þig til að taka þátt. Margt smátt gæti gert eitt stórt! Neðst á þessari síðu eru upplýsingar um hvernig senda meigi inn efni.


Stórfiskaleikur

Einn eða fleiri eru hann í upphafi. Leikmenn sem eru hann, eiga að klappa á miðjunni eða syngja "Út, út allir mínir fiskar." Þá hlaupa hin yfir völlinn. Þau sem klöppuðu eða sungu reyna að ná hinum og klukka þau. Þau sem nást eiga að hjálpa að reyna ná, verða stórfiskar eða bíða þar til næst er klappað út og reyna þá að ná. Seinni valmögleikinn virkar betur, það er að segja að bíða þar til næst er klappað eða sungið, því annars er leikurinn nánast búinn um leið og hann hefst! Hlaupi leikmenn ekki út þó búið sé að klappa má telja upp á tíu líkt og sekúndur líða og hlaupa eftir það að þeim. Mikilvægt er að ítreka við leikmenn að hefja leikinn á miðju vallarins. Ég man ekki hver kenndi mér stórfiskaleik fyrst en eflaust höfum við farið nokkrum sinnum í hann hjá Ingvari Jónssyni íþróttakennari mínum úr Víðistaðaskóla, síðar íþróttafulltrúa Hafnarfjarðar.


Tvíburar (Tvíburastjórfiskaleikur)

Sami leikur og stórfiskaleikur nema að iðkendur leiðast og meiga ekki sleppa því, hvorki þau sem eru að reyna ná eða ekki. Ef iðkendur hætt að leiðast eða missa takið gildir sama regla og sé búið að ná þeim. Þó annar tvíburinn sé klukkaður verða báðir að hjálpa að reyna ná.

Þríburar (Þríburastjórfiskaleikur)

Sami leikur og stórfiskaleikur, ef einhver er stakur í tvíburaleik má leyfa að vera þríburar, einnig má leika stórfiskaleikinn sem þríburar sem er þó mun erfiðara, reynir meira á samvinnu þremenningana. Fjórburar er enn eitt afbrigðið og fimmburar annað en þau afbrigði eru erfið, nemendur vilja missa takið, mjög erfið samvinna, sem veldur deilum.

...bura leikina lærði ég hjá samkennurum mínum Ragnhildi Skúladóttur og Antoni Bjarnasyni íþróttakennurum í Æfingaskólanum.


Keðja eða net

Sami leikur og stórfiskaleikur nema þau sem nást bætast við keðjuna eða netið sem er á miðjunni, með að leiðast. Keðju eða net lærði ég hjá samkennurum mínum Ragnhildi Skúladóttur og Antoni Bjarnasyni íþróttakennurum í Æfingaskólanum.


Frelsi í pottinn

Myndaður er pottur t.d. þríhyrningur, með því að draga kaðal fyrir horn í sal. Það reynist einna best en einnig má mynda hring í miðjum salnum. Meiri hætta er þó á árekstrum við það. Þrír til fimm eru fengnir til að vera hann, eftir fjölda nemenda. Þau sem eru hann er gott að afmarka með t.d. vestum eða böndum og hefja leikinn inn í pottinum með því að taka höndum saman og telja upphátt 10-20-30 uppí 100 og hlaupa þá og reyna að klukka hina. Leikmenn sem nást verða að fara inn í pottinn en hinir geta frelsað með að fara að pottinum og snerta hönd þeirra. Frelsi í pottinn lærði ég hjá Antoni Bjarnasyni íþróttakennara og samkennara mínum úr Kennaraháskólanum.


Brennibolti eða "Brennó"

Völlur er afmarkaður t.d. með kaðli á miðjunni. Skipt er í tvö lið, forðist að láta kjósa, hætt við einelti. Betra er að skipta með því að gefa númer 1-2, eða segja einfalda röð og senda helming hópsins yfir á hinn völlinn. Einnig er ágætis aðferð að reyna skipta út frá hvernig lit iðkendur klæðast, hárlit eða öðru. Í enda vallarins hvoru megin er lína þar sem höfðingi, kóngur eða drottning á að vera í upphafi leiks hjá mótherjum. Mikilvæg regla er að hafa banna að teygja sig inn á völl andstæðingana. Dómari kastar bolta aftur fyrir sig eftir kaðlinum á miðju vallarins í upphafi leiks. Iðkendur reyna að grípa boltann sem er best að sé mjúkur svampolti og sá sem nær knettinum reynir að kasta honum í andstæðing. Fái maður knöttinn í sig frá mótherja færist maður til höfðingja og hjálpar honum. Þegar einn leikmaður á eftir að fá knött í sig fer höfðingi út, fær knöttinn og á tvö líf. Sé um oddatölu að ræða, færra í öðru liðinu má jafna leikin með því að fyrsti eða síðasti iðkandi sem er skotinn eigi tvö líf. Brennó er tilvalin undirstaða undir handbolta, gaman er að kenna börnunum að beyta líkamanum rétt til að skjóta, lyfta olnboganum í sömu hæð og öxlin eða aðeins hærra og beyta öllum líkamanum í skotið. Brennó er leikur með mjög skýrum reglum og virkar vel. Allir eru virkir og til að forðast að þau frekustu séu alltaf að suða um boltann er einfaldast að setja þá reglu að sá sem nær boltanum eigi að skjóta. Ætli ég hafi ekki farið í Brennó fyrst í Viðistaðaskóla hjá Ingvari Jónssyni íþróttakennara, einnig notuðum við Ragnhildur Skúladóttir hann mikið t.d. þegar við vorum með þrískiptann salinn, hægt var að skipta sal Kennaraháskólans í þrennt með tjaldi sem aðgreindi 1/3 og t.d. kaðli í 2/3, þá var tilvalið að hafa brennó í 1/3. Gamli góði litli salurinn í Lækjarskóla er tilvalin stærð fyrir Brennó. Enda hef ég heyrt að Geir Hallsteinsson handknattleiks stjarna, -þjálfari og fyrrum íþróttakennari Lækjarskóla hafi notað leikinn mikið þar, Geir varð síðar íþróttakennari í Fjölbrautarskólanum Flensborg í Hafnarfirði.


Spítalaleikur

Dregin er dýna að miðju vallar eða tvær dýnur settar einhverstaðar á völlinn. Dýnurnar eru spítalar og tveir til fimm iðkendur eru fengnir til að vera hann og er gott að merkja þá með vestum eða böndum. Þau sem eru hann fá það hlutverk að vera hálsbólga, magapína eða aðrir sjúkdómar og verða segja við hina um leið og þau ná þeim að leika það sem sagt er við þau með því að leggjast á bakið og veifa á hjálp. Leikmenn sem eru frjálsir geta orðið sjúkraflutningamenn með því að taka í hendur og fætur þeir sem eru sýkir og bera þá á spítala. Þegar þangað er komið verða leikmenn frískir t.d. með því að telja upp á tíu. Þennan leik man ég eftir að hafa séð fyrst hjá kennaranemum sem komu til mín í æfingakennslu í Æfingaskólanum.


Boðhlaup

Tveir til fimm í liði, virkar vel, þar sem leikmenn eru fara kóngulóagang stutta en skýra vegalengd, hlaupa venjulega eða afturábak, rekja, dripla eða halda á knetti, fyrir fram sig eða aftan bak. Ætli ég hafi ekki farið fyrst í boðhlaup í grunnskóla hjá Ingvari Jónssyni í Víðistaðaskóla.


Hlutverk

Iðkendur leika öll heimsins dýr, jafnvel blóm, bíla, sól, mána, ungabörn, eldri borgara, heimilistæki, húsgögn, tré, gras, sand, sjó, hafið, vatn, vind, blinda, heyrnarlausa, fatlaða, flugvélar, svifdreka, jeppa, dúkkur, sundkonur, -menn, fótboltamenn, -konur, körfuboltakonur, -menn, handboltamenn, -konur, siglingamenn, -konur, golfara eða annað. Virkar vel að láta nemendur fara tvær stuttar ferðir og segja síðan hvað eigi að vera næst. Best er að hafa sem mismunandi hlutverk í hvert sinn til að virkja hugmyndaflugið. Þetta kemur yndislega vel út á flestum stigum grunnskólans, verið alls ekki feimin við að prófa þetta á eldri nemendum. Einnig má láta nemendur vinna saman í hópum og búa til hlutverk eða listaverk. Hópstærðir eru einna besta fyrirkomulagið að hafa 2-4 í grunnskóla, nemendur ráða vart við að vinna 4-5 í hóp en að sjálfsögðu má reyna það. Eftir það fer samstaðan að vera nokkuð erfið og of mörg sjónarmið til að ná að taka ákvörðun en þau hafa gott að því að reyna, eiga eftir að glýma við það alloft í lífinu. Hlutverk man ég að við fórum í af ýmsu tagi hjá Mínervu Jónsdóttur á Laugarvatni.


Björn frændi

Einn til fimm iðkendur eru hann í upphafi leiks og þykjast sofandi í enda vallar eða í horni. Aðrir læðast að úr öðrum enda eða horni og spyrja nokkrum sinnum ertu sofandi björn frændi, þar til björn vaknar og reynir að elta þá sem spurðu að þeim punkti sem þau hófu leikinn á. Þau sem nást eiga að bætast við hópin sem reynir að ná. Björn frænda minnir mig að hafa farið í fyrst hjá Mínervu Jónsdóttur á Laugarvatni.


Blindrabolti

Leikmenn binda trefil fyrir augu, setja á sig skíðagleraugu sem búið er að mála inn í eða hafa annað fyrir augum t.d. svefnhlýfar sem notaðar eru m.a. í flugi. Hringlubolti er á miðjum vellinum í upphafi leiks, það er bolti með bjöllum inni í. Allir leikmenn hefja leikinn með einn bolta hver og rúlla þeim í hringluboltann. Einnig er hægt að leika þennan leik án þess að hafa neitt fyrir augum, en með því að hylja augun fá leikmenn sýn inn í heim blindra. Sjónskertur samnemandi minn af Laugarvatni kenndi mér þennan.


Hringþjálfun

Útbúa má hringlaga þrautabraut, t.d. gengið á bekkjum, köðlum, hlaupið hindrunarhlaup, skriðið undir borð, klifrað eftir slám eða stöngum, sveiflað í köðlum, kollnýs á dýnu, handahlaup, klifrað í rimlum, stokkið yfir kubb, stokkið yfir kistu, kollnýs á kistu, hlaupið yfir hástökkdýnu, stokkið hástökk, langstökk með eða án atrennu, hoppað í gjörðum. Látið hugmyndaflugið ráða ferð og leggið brautina um allann völlinn, ekki leggja bara í hring heldur allskonar boga, nýtið allt svæðið en látið iðkendur fara hring eftir hring. Leysa má þrautirnar með ýmsum hætti, t.d. með tónlist og vinsælt er að láta nemendur "frosna" eða verða myndastyttur um leið og tónlistin stoppar eða er sett á pásu í stutta stund. Einnig er tilvalið að láta nemendur leysa þrautirnar með baunapokum á höfði, bolta í hönd eða rekja, spinna inn í tónlist og hin ýmsu afbrigði t.d. má hafa í sekt missi maður bolta, poka, stoppi ekki um leið og tónlist eða stígi út fyrir ákveðin áhöld, línur eða svæði. Í sekt má meðal annars hafa útskýrðar 5 armbeygjur, 10 kvið eða bakæfingar, 10 englahopp, 10 hnébeygjur, láta syngja eða aðrar æfingar. Ég lærði um hringþjálfun m.a. hjá Janusi Guðlaugssyni íþróttakennara á Laugarvatni, síðar námsstjóra Menntamálaráðuneytisins og í samvinnu við hann í íþróttaskóla barnanna á Áltanesi og síðar hjá Antoni Bjarnasyni íþróttakennara og samkennara mínum í Kennaraháskólanum. Anton stillti upp með okkur Ragnhildi Skúladóttur samkennara mínum mörgum mjög skemmtilegum hringþrautum enda hefur hann langa og góða reynslu af kennslu yngri barna í íþróttaskóla barnanna í Kópavogi.


Stöðvaþjálfun

Útbúa má hinar ýmsu stöðvar þar sem iðkendur vinna t.d. 2-5 á hverri stöð. Unnið er í ákveðin tíma á hverri stöð og síðan fært sig á næstu stöð. Virkar vel með tónlist og fært um leið og tónlist er lækkuð eða sett á pásu. Ég lærði um hringþjálfun m.a. hjá Janusi Guðlaugssyni íþróttakennara á Laugarvatni.


Fimmdimmalimm

Fimmdimmalim virkar oft vel og er athyglisvert að sjá jafnvel óþekkustu einstaklinga hópsins hve þægir þeir geta orðið í þessum leik. Okkur hefur gengið einna best að leika leikinn þannig að sá sem er fyrstur að þeim sem telur fær að telja næst. Annars er leikurinn nánast aldrei búinn og fer bara út í vitleysu. Einn er hann í enda vallarins, sá telur mjög hátt og skýrt ein, tveir, þrír, fjórir, fimm og snýr sér og segir dimmalimm. Hinir byrja í hinum enda vallarins og koma eins nálægt honum og þeir geta en um leið og hann snýr sér við eiga allir að frjósa eða vera eins og myndastyttur, hann má velja allt að þrjá til að fara til baka séu þau á hreyfingu eftir að hann segir dimmalimm, nema hann sjái áberandi fleiri, maður verður svolítið að stjórna því sum vilja vera velja endalaust að senda til baka og þá er ágætt að segja hámark þrjá til baka. Ég man nú ekki í svipan hvar ég fór fyrst í Fimmdimmalimm, enda held ég að sé farið í hann í flestum leikskólum.


Boltaleikir


Fótbolti

Fótbolti er mjög vinsæl grein en því miður nokkuð plássfrek. Mörg íþróttahús grunnskóla er nánast of lítil fyrir þann fjölda sem þangað kemur til að hægt sé að spila og hafa jafn gaman af þessari grein og hægt er. Ég hef þó eins mikið af "aðlögunar" æfingum og hægt er, sendingar, rúlla knetti með fótum á ýmsa vegu, snerta, halda á lofti, skjóta innan fótar, utan fótar, rist, taka innköst, skalltennis, o.fl. o.fl. Allskonar þrautir eru líka frábærar í fótbolta. En leikrænar æfingar eru einna skemmtilegastar. Útitímabil í íþróttum nýtast vel í fótboltann. Ég lærði mjög mikið af Janusi Guðlaugssyni og tók hjá honum A, B og C stig KSÍ í þjálfun, ég þjálfaði einnig fótbolta á Áltanesi og í Bolungarvík.


Handbolti

Handbolti finnst mér aftur á uppleið, ég veit ekki hvort það sé að ég sé að flytjast aftur á æskuslóðir, Handboltabæinn Hafnarfjörð eða hvort það sé vegna endurvakningar eða lægðar Körfuboltans, ef hún er þá einhver. En það er annað mál, mín uppbygging á handboltatímum er að kenna að grípa, dripla, senda, láta telja sendingar bæði beint í brjósthæð og í gólf nálægt samherja. Síðan að fara í skot hvar sé best að hitt á markið, rammann, stökkva inn í teig á dýnu er æfing sem þræl virkar og er skemmtilegt, geta leikið sér af því heilu kennslustundirnar með ýmsur afbrigðum. Hafa einn í vörn tvo í sókn og öfugt og fjölga smátt og smátt. Uppbyggingin í leiknum er mikilvægt að kenna vel, fyrst að leyfa engum að fara út fyrir punkta línu sem eru í vörn til að þau læri hvað er vörn og hvað er sókn, annars vill leikurinn byggjast á maður á mann og fara í eintóma vitleysu til að byrja með. Ég kenni þeim sem eru í sókn að gefa á alla og öruggustu sendingarnar eru á manninn við hliðina, ekki langar sendingar á einhvern vin þarna lengst úti í horni þegar maður er í hinu horninu. Mikilvægt er líka að hvetja öll til að fylgja fram í sókninni og þora að skjóta og að skora. Taka fast á brotum en fara frjálslega með reglur til að byrja með, skref o.fl. það verður engin heimsmeistari í fyrsta sinn. Smátt og smátt fer leikurinn að verða skemmtilegri og mjög fljótt eftir að leikurinn þróast upp í vörn og sókn er gaman að leyfa einum að vera fiskari, fyrir utan punkta í vörninni og þau verða skiptast á. Allir að prófa, t.d. regla Nonni í horninu byrjar, síðan næsti við hliðina á honum, síðan Sara við hans og þá Magga við hlið hennar og svo framvegis. Ef þetta gengur vel, byggi ég næsta skref á að þau sem ná að fiska meigi fara í hraðupphlaup, þá þurfi ekki að gefa á alla. Ég lærði mikið á Laugarvatni í Handbolta og mikið hjá landsliðþjálfaranum sem kom með kynningar í Háteigsskóla, eitthvað sem önnur sérsambönd og félög ættu að taka sér meira til fyrirmyndar, þá leysti ég einnig handboltaþjálfara af á nokkrum handboltaæfingum í þjálfun í Bolungarvík.


Körfubolti

Var lengi ein vinsælasta íþróttagrein grunnskólans en áhrif NBA eru greinilega að dala. Körfubolti er vissulega enn vinsæl grein enda góður leikur sem íþróttakennari fann upp. Á marga vegu er hægt að kenna körfuboltann, mínir tímar hafa byggst upp á því að kenna sniðskot, vítaskot, fara í leiki eins og 21 og Asna í litlum hópum. Að spila í lokin er nokkuð sem er mikilvægt að hafa nánast alltaf, því það er mest spennandi, munum að lækka körfurnar hjá þeim yngri og hafa boltana hjá þeim ekki alltof stóra. Það kemur oft vel út og betur að lata spila marga leiki á eina körfu heldur en að láta lið bíða. Svali Hrannar Björgvinsson kenndi mér í vali körfuknattleik í íþróttakennaraskólanum einnig fékk ég góðan grunn hjá Ingvari Jónssyni íþróttakennara Víðistaðaskóla og körfuknattleiks frumkvöðuls í Hafnarfirði. Ég þjálfaði einnig Körfuknattleik á Bolungarvík og leysti þjálfara þar af í forföllum.


Blak

Er mjög skemmtileg grein, allir eru virkir, tekur nokkur skipti að kenna og eftir það gengur Blak mjög vel. Hægt er að kenna með ýmsum leiðum, fyrst megi grípa allar sendingar, síðan fækka því niður í sendingar yfir net og síðan bara fyrstu sendingu yfir netið. Einnig má leyfa eina snertingu í gólf til að byrja með. Mikilvægt er að kenna undirstöðuatiði, fleigs, fingurslags og uppgjafar og mér hefur reynst einna besta að hafa gula ódýra gúmítuðru bolta. En vissulega er besta leiðin að hafa alvöru leðurbolta þegar lið nær tökum á leiknum.


Sund

Ég er hand viss um það að ég get skrifað heila bók um sundið en ég ætla að láta nokkurskonar upptalningu duga hér. Fyrst ber að nefna aðlögun, leiki og leikföng. Mér finnst afar mikilvægt að sigrast á öllum vatnshræðslum í 1. og 2. bekk með ýmsum leikjum. Flestir leikir sem hér á undan eru upp taldir geta virkað en það sem ég hef einna helst notað eru stórfiskaleikur, tvíbura stórfiska leikurinn virkar en ekki eins vel og í sal. Eitur í flösku virkar vel í 3. og 4. bekk þar sem nemendur eiga að kafa eða snerta með fæti í milli fóta hinna í 3. bekk sjái maður einhverja vatnshrædda þar ennþá. Þegar maður sér að sá leikur virkar í 2. bekk er ekkert því til fyrirstöðu að reyna hann en í alla muni ekki reyna eitthvað sem þið vitið fyrirfram að verði of erfitt og getur því virkað fráhrindandi á frekara sundnám, hafið alltaf auðveldar æfingar með erfiðari, þannig að við byggjum upp sjálfstraust þeirra sem eru enn nokkuð vatnshrædd. Kviðkúturinn og sundtökin koma smátt og smátt inn, en er þó langt í frá aðalatriðið fyrr en seint í 3. og byrjun 4. bekk. Munið að eftir 4. bekk er fyrst gerð getið í markmiðsetningu um að nemendur syndi 25 metra bringusund. Ég er reyndar á móti þessu og leyni því alls ekkert hér, það er erfiðasta sundaðferðin og vissulega ágætt ef það tekst en ekkert að því þó það takist ekki, ekkert að því að geta frekar synt skriðsund eða skriðbaksund eða baksund eins og það heitir. Skólabaksundið er jafnvel mun auðveldara en bringusundið, sem er þó mikilvægt að byrja kenna snemma, það dreg ég ekki úr til að nemendur læri það þá einhverntíma almennilega enn í guðana bænum ekki hamast við það eingöngu án nokkurra annarra auðveldari sundtaka á þeim þroska sem ræður vart við þá samhæfingu sem til þarf, og það jafnvel bara vegna þess að leiðbeinandinn eða kennarinn kann það sund nánast eingöngu. Ég ætla nægja smávægilega upptalingu í bili, einfaldlega vegna þess að ég er að fara kenna, en fylli inn í eyðurnar þegar tími og efni berst.

Kafa, ganga, blása í gegnum gjarðir.

Fljóta á dýnum

Hoppa í laug

Stjörnuflot

Marglyttuflot

Marglyttuflot og rétta úr sér

Ganga og hlaupa í lauginni

Busla

Hoppa í botningum

10-20-30

Fljóta á bakinu

Fótatök

Sýnikennsla

Speglar

Armkútar

Froskalappir

Boltar

Vesti

Stokkbretti

Rennibrautir

Spyrna frá bakka

Snúningur

Stunga

Flugsund

Baksund

Skriðsund

Skólabaksund

Bringusund

Boðsund

Sundknattleikur

Sundfimi

Vatnsleikfimi


Frjálsar

Ég hef alltaf sett inn boltakast, grinda-, hindruna-, sprett- og langhlaup, langstökk og hástökk hef ég alltaf haft á dagskrá og kennt þessi atriði bæði í hringþjálfun, stöðvum og haft einstaka sérstaka tíma í frjálsum. Mjög gaman er að komast t.d. að vori út á fjálsíþróttavöll og brjóta þannig upp kennsluna. Því miður hafa ekki allir skólar færi á því en það er þó vel hægt að hvetja til þess í ríkara mæli að farnar séu vettvangsferðir á næsta frjálsíþróttavöll. Skólahringur er eitthvað sem við setjum upp á hverju síðsumri og hausti, vori og upphafi sumars. Langhlaup eins og fjölþrepakönnun "píp test" er tvisvar á önn hjá mér og læt ég alla iðkendur taka könnunina. Tekin er tími þar og sett upp tafla um einkunn, sem hefur verið hvetjandi fyrir iðkendur. Okkur hefur tekist í þeim skólum sem ég hef kennt við að hafa hringi sem ekki þurfi að fara yfir götur, hægt að hlaupa á gangstíg alla leið. Stundum hef ég leyft nemendum að hjóla en það er þó varhugavert þegar verið er að taka tíma, man eftir nemanda sem datt, en hann meiddi sig sem betur fer ekki alvarlega.


Hjólreiðar

Skólahringir og ferðir.


Badminton

Er frekar plássfrek grein en oft mjög skemmtileg, hægt er að vera með ýmsar útgáfur, halda á lofti, ein sér, einn á móti einum, tvo og tvo saman, telja hve oft þau ná að halda á lofti. Kenna hvar völlurinn er, uppbyggingin í leiknum, gera æfingar með flugurnar, á höfði á spaða, leika þannig að farið sé útaf eftir að búið sé að slá og annar taki við o.sfrv.


Frispy

Hreint frábæran leik lærði ég af nemendum mínum um daginn. Hægt er að nota hverskonar frispydisk en öruggast er að nota gúmí hring eða svamp. Skipt er í tvö lið, ég hef bæði prófað að spila þetta í litlum og stórum sal og þetta þræl virkar á alla nema kannske helst 1. bekkur sem þarf að læra meira félagslegt áður en þetta gengur upp, en ekkert að því að prófa og prófa aftur. Með góðri kennslu og stuðning inn í bekk. Lið sækir fram með því að kasta disknum eða hringnum á milli sín, ef hann lendir í gólfi, vegg eða lofti fær hitt liðið hringinn, ekki má snerta andstæðinginn, ef samherji grípur utan vallar á þeim enda vallarins sem sótt er að fær liðið stig. Þetta er frábær leikur, allir virkir, bæði hægt að hafa tvo eða þrjú lið á bekk og ekkert að því að spila í litlum sölum.


Frjálst og val

Mig langar að enda upptalninguna á því að mynnast á eitt af því sem mér finnst mjög mikilvægt í grunnskóla, það er að kenna börnum hreinlega að leika sér frjálst, ég held að þetta sé að verða enn mikilvægara í nútíma þjóðfélagi, ég heyrði í Kastljósinu athyglisverða rannsóknir, að börn leika sér ekki eins frjálst og var, ég hef einnig heyrt að sumir telji hreyfiþroska farið aftur en ég hef líka heyrt að félagsþroski hafi farið aftur. Hætt er við því að í markaðsþjóðfélaginu erum við að verða símötuð. Það þarf ekki að keyra okkur hvert sem er, það þarf ekki að leiðbeina okkur í öllu, það þarf ekki sífellt að vera mata börn. Leyfum þeim að njóta sín á eigin forsendum. Leggjum inn nokkra þætti og leyfum þeim líka að velja. Oft er ég með val, bolta þarna, leiktæki þarna og kaðla þarna svo einhver dæmi séu tekin, svo geng ég á milli, hvet þau og virki til að leika sér á eðlilegan og kurteisan hátt saman, án átaka og rifrilda, leyfa þeim að prófa, reyna og hvet þau áfram, ef ekki er nóg af áhöldum fyrir alla er einfalt að kenna þeim umburðalyndi og að leyfa félögunum líka að prófa. Þá verður þér leyft líka! Og þannig eignast þú vini sem þú getur leikið þér með. Eftir svona tíma hvort heldur er að hluta til eða heilu kennslustundirnar, sem er ekkert að því að hafa af og til ljóma börnin maður fær oft virkni hjá þeim sem draga sig stundum í hlé og þau verða virkari fyrir vikið í öðru sem þau fengust jafnvel ekki til að reyna áður, skyldi þetta vera í samræmi við það sem ég myntist á hér áður að ég hafi heyrt félagsþroska hafa farið aftur, en af hverju, eru áherslur í uppeldi breyttar? Skyldi þetta hjálpa, mér finnst andrúmsloft verða annað í kennslunni, ég fæ traust og aðrir nemendur fá traust. Leyfum börnum að vera börn.



Taktu þátt NÚNA í að mynda leikjabankann.

Hafir þú leiki, auglýsingar, fyrirspurnir eða ábendingar til að leggja inn í leikjabankann hafðu þá endilega samband NÚNA á meðan þú manst eftir því með tölvupósti, faxi eða símtali.

Tölvupóstur

Til að senda mér tölvupóst geturðu smellt á netfangið mitt arnthorr@yahoo.com eða tekið afrit af því, límt fyrir aftan orðið til, to, cc eða bcc í póstforritið eða kerfið sem þú notar. Ef þú notar tvo síðustu möguleikana verður þú að setja annað netfang í til eða to, annars fer tölvupósturinn ekki langt. Munurinn á bcc og öðrum valmöguleikum er sá að bcc viðtakendur sjást ekki hjá hinum. Mundu að skrifa inn texta eða líma hann inn í póstforritið úr öðrum forritum eða og hengja viðhengi við bréfið, merkja með nafni og senda! Einn önnur smá ábending er að alltaf er betra að setja texta inn í póstforritið heldur en að hengja við forritið sökum hræðslu við vírus. Gott er að vita hvernig viðhengi þú ert að taka á móti. Virk vírusvarnarforrit geta komið í veg fyrir vírusa en hafðu þó hugfast að þau finna þá ekki alla. Þú þarft þó ekki að hræðast um of vírusa... getur skoðað endirinn á nafni skjalana, varastu að opna skjöl sem enda á .src nema þú vitir nákvæmlega hvað þú ert að taka á móti. .src þýðir að skjalið er skrifanlegt og getur t.d. skrifað yfir allar .jpg myndir á harðadisknum þínum. Að lokum hérna í fræðsluhorninu er því gott að taka reglulega afrit af .jpg myndum, t.d. með að brenna þær á geisladiska sem er einna ódýrasta og endingalengsta lausnin.

Símbréf

Til að senda mér símbréf eða fax í Lækjarskóla er faxnúmerið 565 5185 MUNDU AÐ MERKJA FAXIÐ: "Berist til Arnþórs íþróttakennara" og frá hverjum það berst viljirðu láta nafn þíns getis.

Símanúmer

Einnig má hafa samband við mig í Lækjarskóla á viðtalstíma á mánudögum klukkan 14:35 til 15:15 í síma 555 0585 eða í íþróttahúsinu í síma 555 1385 og utan skólatíma má reyna ná á mér í síma 899 9498.


Lokaorð

Gaman væri að heyra frá þér, hjálpaðu við að mynda gagnabanka um leikjasafn og sendu inn smá lýsingu á leikjunum sem virka hjá ykkur, þó ekki væri nema einn myndi það hjálpa. Láttu í þér heyra núna! Verum ekki öll að finna upp hjólið heldur vinnum saman, einnig væri gaman að fá litlar myndir sendar (nokkur kb. alls ekki mb.) af uppstyllingum í sal, laug eða á lóð og öðru skemmtilegu úr starfinu. Mundu að geta ljósmyndara. Einnig mætti senda stuttar hreyfimyndir, en munið að senda alls ekki mb. í tölvupósti þannig efni er mun betra að fá á geisladiskum. Hér er um tilvalið samvinnuverkefni í íþróttum, ljósmyndun, myndmennt og upplýsingatækni. En í dag heyrir maður íþróttakennara nefnda leikfimi kennara og skólaíþróttir leikfimi. Er nokkuð af því? Íþróttafræði er af hinu góða en leikfimi líka.

Mig langar að hafa lokaorðin gleymum aldrei að börn eru börn og leyfum þeim að vera það eins lengi og kostur er, skellum ekki boltaleikjum á frá 4. til 6. bekk og höfum nánast ekkert annað eftir það í íþróttum eða í leiktækjum á skólalóð. Jafnvel fullorðnir hafa líka gaman af því að leika sér, því fleiri leiktæki og leikir því minni átök. Þessu til stuðnings minni ég á að eftir að leiktækjum fjölgaði í sundlaugunum snar minnkuðu kaffæringar og almenn vatnshræðsla, leikir og leiktæki eru eitt besta vopnið við að sigrast á henni. Skyldi ekki vera samband þarna á milli áfloga og láta á skólalóðum, börnin finna sér alltaf eitthvað að leika að, ef ekki er bolti, róla, sandkassi, leiksvæði til að fara í leiki byggist leikurinn einfaldlega á því að stríða eða slást.

Með vinsemd og virðingu,

Arnþór Ragnarsson
íþróttakennari


Þú ert gestur númer:

FREE Image Hosting and Counters Provided by BidBay.com

© AR